Heimurinn í hnotskurn

Heimurinn Tindra er að mestu leyti eins og jörðin. Hún virðist vera hnöttótt, það kólnar eftir því sem maður dregur nær pólunum og hitnar nær miðbaug. Gulhvít sól hitar plánetuna og tungl snýst um hana. En þessi heimur er töluvert hættulegri. Í skógunum finnast ógnarúlfar og uglubirnir, úr fjöllunum koma sviptinornir og dríslar, í mýrum leynast eðlumenn og tröllfroskar, á sléttunum herja orkar og gnólar. Þá er bara verið að tala um náttúrulegar ógnir.

Á Drekahafssvæðinu, þar sem þið hefjið sögu ykkar, sigraði siðmenningin gegn öllum þessum öflum. Risaborgir voru reistar, listir og menning blómstruðu, og fólk bar virðingu fyrir hvort öðru og sagði ekki ósatt. En dramb hinna fornu keisara var mikið, og vöktu þeir reiði drekanna, sem tortímdu miklu borgirnar með eldi og ís og hnepptu allt fólk í þrældóm. Upp úr niðurníddum skaranum risu nákóngarnir til að steypa harðstjórunum af stóli, en reyndust ekkert betur sjálfir. Ekki heldur bölkóngarnir sem komu á eftir, sem seldu sálir sínar djöflum til þess að vinna á nákóngunum. Bölkóngarnir voru loks reknir á brott með aðstoð vélmanna sem dvergarnir bjuggu, en þetta tilbúna fólk var ekki reiðubúið til að þræla þrotlaust fyrir skapara sína. Borgarastyrjöld fylgdi, sem olli mikilli eyðileggingu áður en órólegur friður komst loks á.

Þrátt fyrir öll þessi áföll er siðmenningin ennþá á lífi. Hún þraukar sem eyjur af ljósi í myrku hafi. Fólk lítur vongóðum augum til framtíðar; það er ekki lengur þrælar ómannlegra illmenna og hefur frelsi til að rækta land og sjálfið í friði. En þar sem ljósið frá arineldinum endar tekur við heimur sem er hættulegri en nokkurn tímann fyrr, og á mörkum hins þekkta heims leynast ennþá gamlir fjendur, sem bíða eftir tækifæri til að snúa aftur.

Heimurinn í hnotskurn

Drekar & Dýflissur valurs valurs